Góð spurning.
Afrek er ný líkamsræktarstöð sem opnar í desember í Skógarhlíð 10.
Í fyrstu ætlum við að bjóða upp tvær tegundir af hefðbundnum tímum sem við köllum Kraft og Úthald. Í Krafti verður meiri áhersla á lyftingar með stöng, kraft- og ólympískar en í Úthaldi verður meira unnið með ketilbjöllur og eigin líkamsþyngd.
Við ætlum líka að bjóða upp á mjög metnaðarfulla tíma fyrir verðandi og nýbakaðar mæður og skráning á fyrsta námskeiðið sem hefst í janúar er hafin á vefnum okkar. Svo verðum við að sjálfsögðu með sérstök námskeið fyrir byrjendur. Þetta er bara byrjunin og planið er að vaxa með iðkendahópi okkar og bjóða upp á fjölbreytta tíma og námskeið.
Æfingarnar okkar fylgja hugmyndafræði sem kallast: „Functional Fitness“ eða: „Hagnýt hreyfing“. Það þýðir að við leggjum áherslu á að iðkendur okkar hreyfi sig vel, að æfingarnar nýtist þeim í daglegu lífi og að öll hreyfing og líkamleg átök í daglegu lífi verði auðveldari.
Hljómar vel en hver er á bakvið Afrek?
Við erum átta fjölskyldur úr ýmsum áttum og það mætti segja að ketilbjöllusveiflurnar hafi leitt okkur saman á sínum tíma.
Í hópnum eru þjálfarar og allskonar fólk sem hefur æft saman hér og þar síðustu ár. Við höfum lengi látið okkur dreyma um að stofna eigin stöð og það er frekar langt síðan við ákváðum að kýla á það.
Hér er mynd af okkur:
En af hverju „Afrek“?
Orðabókin segir að afrek sé verk sem innt er af hendi með sérstökum dugnaði og skilar miklum árangri. Það er erfitt að finna betri lýsingu á því að mæta á æfingu. ‘
Svo má ekki gleyma að þegar kemur að hreyfingu eru afrekin persónubundin. Það er afrek að mæta á æfingu þegar maður hefur varla tíma eða ef maður hreinlega nennir ekki. En það er líka afrek að setja persónulegt met í hnébeygju, hvort sem bætingin er eitt kíló eða tuttugu. Upphífingar með mjórri teygju en síðast, fimm armbeygjur, tíu armbeygjur, 100 í bekk, heil æfing án þess að stoppa. Allt saman afrek.
Við viljum að nafnið bjóði fólk velkomið, hvort sem það er búið að sveifla ketilbjöllum í tíu ár eða þurfi að rifja upp tæknina, jafnvel læra hana frá grunni.
Fyrsta afrekið er að mæta.