„Mér finnst skipta ótrúlega miklu máli að mæður gefi sér tíma fyrir sjálfa sig,“ sagði Hildur Karen Jóhannsdóttir, sem sér um Afreksmömmur í Afreki, í viðtali á mbl.is um síðustu helgi.
Afreksmömmur hafa farið mjög vel af stað en námskeiðið hófst þegar Afrek opnaði í Skógarhlíð í byrjun árs. Mjög góð mæting var á fyrsta námskeiðið og aðsóknin er þegar orðin svo mikil í febrúar að búið er að bæta við öðru námskeiði. Það verða því tvö námskeið í febrúar; klukkan tíu og 13.30 alla mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. Uppselt er á morgunnámskeiðið í febrúar og það eru þegar nokkur pláss laus á eftir hádegi. Þá er skráning einnig hafin á námskeiðið í mars og apríl.
Þjálfarinn Hildur Karen er 26 ára mamma, unnusta og sérhæfður meðgöngu- og mömmuþjálfari. Hún hefur lært ýmislegt annað í gegnum tíðina, lauk t.d. BS gráðu í sálfræði við Háskólann í Reykjavík árið 2018, kláraði diplómunám á meistarasviði í sálrænum áföllum, ofbeldi og áfallamiðaðri þjónustu ári síðar, tók Crossfit Level 1 þjálfararéttindi auk þess að vera förðunarfræðingur.
Í viðtalinu á mbl.is sagði Hildur Karen að kosturinn við mömmunámskeið væri að þangað geti konur komið og æft með öðrum konum sem eru að ganga í svipaða lífsreynslu og þær.
„Það myndast skemmtileg stemning og það er svo gaman að deila sinni reynslu með öðrum og fá að heyra hvernig reynsla annarra er. Það er einnig mikill og mikilvægur kostur að æfa undir leiðsögn þjálfara sem býður upp á sérhæfðar æfingar fyrir þennan hóp og að sjálfsögðu að geta tekið krílin með sér á æfingu,“ sagði hún á mbl.is.
Hildur Karen segir að æfingarnar henti bæði þeim sem eru langt komnar og þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref. „Allar meðgöngur og fæðingar eru mismunandi og batinn sömuleiðis. Því finnst mér mikilvægt að mömmunámskeið bjóði upp á æfingar í samræmi við líkamlega getu hverrar og einnar hverju sinni.“